Fara í efni

Úthlutun styrkja vegna úrbóta á ferðamannastöðum 2011

Workshop
Workshop

Ferðamálastofa hefur tekið ákvörðun um úthlutun styrkja vegna úrbóta á ferðamannastöðum fyrir árið 2011. Alls hlutu 28 verkefni styrk að heildarupphæð 33 milljónir króna.

Mörg áhugaverð verkefni
Alls bárust 178 umsóknir, sem er nokkur fækkun frá fyrra ári. Heildarupphæð sem sótt var um var um 330 milljónir króna en til úthlutunar að þessu sinni voru 33 milljónir króna, sem fyrr segir. Umsóknir voru almennt mjög vel vandaðar og verkefnin áhugaverð. Því reyndist sérlega erfitt að velja á milli en sem sjá má var aðeins hægt að verða við broti af umsóknum.

Samtals 28 verkefni styrkt
Alls hlutu 28 verkefni styrk og allmennt séð má segja að talsvert hafi verið veitt í hönnun og undirbúning framkvæmda að þessu sinni. Að meðaltali er hver styrkupphæð heldur hærri en verið hefur undanfarin ár en hæsta styrkinn, 6 milljónir króna vegna tveggja verkefna, fékk félagið Vinir Þórsmerkur vegna hönnunar göngubrúa yfir Markarfljót og viðhald göngustíga í Goðalandi. Auk þeirra 33 milljóna sem komu til úthlutunar má geta þess að fjármunir voru settir í eins konar viðbragðssjóð sem hugsaður er fyrir aðstæður sem kynnu að skapast á komandi sumri.

Styrkjum vegna úrbóta á ferðamannastöðum hefur verið úthlutað árlega frá 1995 og var þetta því í 17. skipti. Á þessum tíma hefur Ferðamálastofa varið yfir 700 milljónum króna til framkvæmda á um 300 stöðum á landinu.

Listi yfir styrkþega 2011 (PDF)