VAKINN ? umhverfisviðmiðum hleypt af stokkunum
Í gær var formlega hleypt af stokkunum fyrsta hluta hins nýja gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar sem verið hefur í undirbúningi síðustu misseri. Kerfið nefnist VAKINN og eru það umhverfisviðmið kerfisins sem kynnt voru í gær.
Formlega kynntur í febrúar
VAKINN mun formlega verða kynntur og fara í notkun í febrúar næstkomandi. Ástæða þess að umhverfisviðmiðin eru kynnt á undan öðrum hlutum kerfisins er sú að þættir í umhverfishluta þess gera ráð fyrir að fyrirtæki hafi stundað reglubundnar mælingar á tilteknum þáttum í 6-12 mánuði áður en úttekt á sér stað. Frá og með deginum í dag geta fyrirtæki þannig farið að vinna samkvæmt umhverfisþáttum VAKANS, þótt formlega verði ekki hægt að sækja um inngöngu fyrr en í febrúar.
Hvað er VAKINN?
Gæða- og umhverfiskerfið VAKINN er afsprengi þróunarverkefnis sem iðnaðarráðuneytið fól Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna að. Verkefnið er unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands og þannig hefur skapast breið samstaða innan ferðaþjónustunnar um þennan mikilvæga málaflokk. Ákveðið var að byggja á kerfi því sem unnið er eftir á Nýja Sjálandi og kallast Qualmark. Umhverfisviðmið VAKANS eru staðfærð og unnin af Stefáni Gíslasyni, umhverfisstjórnunarfræðingi hjá UMÍS.
Verkfæri ferðaþjónustuaðila
Meginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. Þannig er kerfið fyrst og fremst verkfæri til að aðstoða þátttakendur við að auka gæði og öryggi. Þetta er gert með hjálpargögnum og leiðsögn. VAKINN tekur bæði til gistingar og annarrar ferðaþjónustu, svo sem afþreyingar, samgangna og veitingaþjónustu.
Siðareglur VAKANS
Í dag voru einnig kynntar siðareglur VAKANS en öll fyrirtæki sem þátt taka í verkefninu skulu samþykkja og fylgja þeim. Siðareglurnar eru í 15 liðum og skulu þær hanga uppi á áberandi stað hjá viðkomandi fyrirtæki. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu, kynnti kerfið á fundi á Hótel Reykjavík Natura og afhenti við það tækifæri nokkrum lykilaðilum sem standa að kerfinu, nýju siðareglurnar. Á meðfylgjandi mynd eru þær Unnur Halldórsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Íslands; Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar; Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.