Vara ferðamenn við ónothæfum snjallsímaforritum
Slysafélagið Landsbjörg vill vara ferðamenn við notkun á snjallsímaforritum sem markaðssett eru sem snjófljóðarleitartæki.
Forritin sem um ræðir eru meðal annars þau iSis Intelligant Rescue System, Snog Avalanche Buddy og SnoWhere.
Virka ekki
„Þetta bara virkar ekki,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna. „Slík forrit eru búin að vera mikið í umræðunni hérna heima og við vildum vara við þessu,“
Nota viðurkennda snjóflóðaýla
Jónas segir að þeir sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi skuli ávallt notast við hefðbundna og viðurkennda snjóflóðaýla. Slíkir snjóflóðaýlar senda út á tíðninni 457 kHz og geta þeir leitað að hverjum öðrum, óháð merkjum.
„Sú tíðni var valin á sínum tíma þar sem hún endurkastast vel í gegnum þéttan snjó og endurkastast ekki af grjóti eða öðrum hindrunum,“ segir Jónas. „Umrædd snjóflóðaforrit notast m.a. við Bluetooth merki sem veikist hratt í snjó og endurkastast af grjóti og öðrum hindrunum,“
Ónákvæm staðsetning
Auk þess bendir Jónas á að snjallsímar notist við GPS tækni til staðsetningar sem er alls ekki eins nákvæm og sú tækni sem hefðbundnir snjóflóðaýlar notast við.
„Einnig má benda á að snjallsímar eru ekki eins sterkbyggðir og snjóflóðaýlar né með sömu rafhlöðuendingu.“
Réttur búnaður
Hvetur því Slysavarnafélagið Landsbjörg alla ferðamenn til fjalla til að nota hefðbundna snjóflóðaýla á ferðalögum sínum auk snjóflóðastangar, skóflu og hefðbundins öryggisbúnaðar.