Vatnavinir fá virt alþjóðleg verðlaun í arkítektúr
Samtökin Vatnavinir hafa hlotið virt alþjóðleg verðlaun í arkitektúr „Global Award for Sustainable Architecture 2011“ fyrir verkefnið Heilsulandið Ísland.
Í tilkynningu segir að verðlaunin séu veitt af Locus Foundation sem hefur það að markmiði að veita arkitektum er starfa víða um heim viðurkenningu fyrir framþróun á sviði sjálfbærni í arkitektúr. Yfir 200 tilnefningar bárust til verðlaunanna og eru fimm viðurkenningar veittar á ári hverju. Vatnavinir samanstanda af alþjóðlegum hópi fagfólks sem koma úr ólíkum greinum byggingarlistar, hönnunar, markaðssetningar, ferðamennsku, heimspeki og listum.
Verðlaunin, eru nú veitt í fimmta sinn, en fyrri verðlaunahafar telja m.a. Snöhetta, arkitektar að Óperuhúsinu í Osló. Formleg verðlaunaafhending verður í Cité de l´Architecture í París í maí. Eitt af markmiðum Locus Foundation er að efla alþjóðlegt samstarf sérfræðinga á sviði sjálbærni og að efla aukna vitund fagaðila sem almennings um nauðsyn samfélagslegrar ábyrgðar við mótun manngerðs umhverfis. Arkitektarnir og félagarnir í Vatnavinum Olga Guðrún Sigfúsdóttir, Sigrún Birgisdóttir og Jörn Frenzel kynna verkefni Vatnavina í Cité de l´Architecture í París og taka þátt í ráðstefnu á vegum Unesco og Locus Foundation „ Rediefining progress: Architecture for a new Humanism“ í lok maí á þessu ári.
Vefsíða Vatnavina: www.vatnavinir.is