Fara í efni

Vefur um íslenskt tónlistarlíf

Tónlistarvefur
Tónlistarvefur

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) tók nýverið í gagnið vefinn www.icelandicmusic.is sem ætlað er að veita upplýsingar um íslenskt tónlistarlíf.

Þegar hefur fjöldi listamanna skráð upplýsingar um sig á vefinn, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Paul Sullivan, sem meðal annars hefur skrifað fyrir fjölda alþjóðlegra tónlistartímarita og skrifaði bókina Waking up in Iceland, hefur verið ráðinn ritstjóri vefsíðunnar. Hann mun sjá um efnisöflun og greinaskrif samhliða því að ritstýra aðsendu efni.

Anna Hildur Hildibrands­dóttir, framkvæmdastjóri ÚTÓNs, er þess fullviss að vefurinn verði öflugt kynningartæki fyrir íslenskt tónlistarlíf. ?Við erum að temja okkur ákveðna nálgun í kynningum og erum með mjög sterkan og samrýmdan hóp sem vinnur vel. Nú er tímabil þar sem við erum að prufukeyra vefinn og við hlökkum til að fá uppbyggilegar ábendingar frá þeim sem láta útflutning á íslenskri tónlist til sín taka," er eftir henni haft í tilkynningunni.