Vegvísir í ferðaþjónustu Ný ferðamálastefna
Í dag kynntu Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála og Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar nýja ferðamálastefnu.
Undanfarin ár hefur fjölgun ferðamanna verið langt umfram spár og væntingar eru um áframhaldandi vöxt greinarinnar. Til að stuðla að farsælli þróun í ferðaþjónustu á Íslandi tóku iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem jafnframt er ráðherra ferðamála, og Samtök ferðaþjónustunnar höndum saman um mótun stefnu í ferðaþjónustu til lengri tíma með áherslu á sjálfbæra þróun. Settur var á laggirnar stýrihópur og verkefnahópur sem unnu að gagnaöflun, greindu stöðuna og kynntu sér fyrirmyndir erlendis frá. Auk þess var fundað með um 1000 manns vítt og breitt um landið.
Forgangsverkefni næstu fimm ára
Niðurstaða stýrihópsins var því að horfa sérstaklega til forgangsverkefna næstu fimm ára, en þau snúa að því að leggja traustan grunn fyrir farsæla og sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar til framtíðar. Á næstu fimm árum verður fyrst og fremst lögð áhersla á verkefni sem stuðla að:
Samhæfðri stýringu ferðamála
Jákvæðri upplifun ferðamanna
Áreiðanlegum gögnum
Náttúruvernd
Hæfni og gæðum
Aukinni arðsemi
Dreifingu ferðamanna
Stjórnstöð ferðamála
Á grundvelli samkomulags milli ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar sem undirritað var í dag verður sett á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem mun starfa til ársloka 2020. Í henni sitja
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
Þórir Garðarsson, varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs
Stjórnstöðin sér til þess að næstu fimm ár verði nýtt til að ráðast í þau verkefni sem nauðsynleg eru til að leggja þann trausta grunn sem kallað er eftir í íslenskri ferðaþjónustu. Hlutverk hennar er að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila.
Hörður Þórhallsson veitir Stjórnstöð ferðamála forystu
Hörður Þórhallsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála og tekur hann til starfa í dag. Hörður er með mastersgráðu í rekstrarverkfræði frá háskólanum Karlsruhe í Þýskalandi. Hann hóf starfsferil sinn árið 1996 sem rekstrarráðgjafi hjá VSÓ Ráðgjöf og var árið 2000 ráðinn til lyfjafyrirtækisins Delta, sem síðar varð Actavis. Þar leiddi hann m.a. uppbyggingu Actavís í Asíu, Eyjaálfu, Afríku og á Miðausturlöndum. Síðast gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra Actavis yfir Asíu, Eyjaálfu og Afríku með starfsstöð og búsetu í Singapúr.
Hér að neðan er hægt að kynna sér nýja ferðamálasefnu nánar.
Samningur um stjórnstöð ferðamála undirritaður.