Veitingastaðurinn á Hótel Holti opnaður á ný eftir breytingar
Veitingastaður Hótel Holts hefur verið opnaður á ný eftir gagngera endurnýjun og andlitslyftingu. Staðurinn ber nú heitið Gallery. Áherslur breytast að auki í því að gerð verða skarpari skil á milli hádegisstaðar og kvöldverðarstaðar en verið hefur.
Í frétt frá Hótel Holti kemur fram að um sé að ræða veigamestu breytingu í sögu þessa kunna veitingastaðar, sem opnaður var 1966, ári eftir að Hótel Holt tók til starfa. Yfirmatreiðslumaður Gallerys er Friðgeir Ingi Eiríksson en hann hefur stjórnað eldhúsi Michelin-staðarins Clairefontaine í Lyon í Frakklandi undanfarin fimm ár við góðan orðstír.
Sérhönnuð eldavél
Ásamt fagfólki sínu á Friðgeir veg og vanda af flestum breytingunum á staðnum en þar ber hæst nýtt eldhús með sérhannaðri eldavél sem smíðuð var í Frakklandi eftir hugmyndum hans. Umgjörð veitingasalarins hefur tekið verulegum breytingum, þótt ekki hafi verið hreyft við þeim atriðum sem fólk þekkir og skapað hafa Hótel Holti sérstöðu í áranna rás. Málverk úr hinu einstæða safni hótelsins munu sem fyrr prýða veggina. Salurinn tekur um 75 manns í sæti. Franska hefðin í matargerð er áfram í hávegum höfð, með áherslu á besta fáanlega hráefni hérlendis, en auk þess mun framreiðslan verða íburðarmeiri en áður.