Vel heppnuðu ferðamálaþingi lokið
Á annað hundrað manns tóku þátt í tveggja daga ferðamálaþingi sem lauk á Ísafirði nú síðdegis. Iðnaðarráðuneytið og Ferðamálastofa gengust fyrir þinginu í samvinnu við Hönnunarmiðstöð, Arkitektafélag Íslands, Byggðasafn Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöð og Íslandsstofu. Yfirskrift þingsins var „Upplifðu“ en meginþema þess var áhersla á samspil ferðaþjónustu og skapandi greina.
Bakgrunnur fyrirlesara var fjölbreyttur og má þar nefna hönnuði, háskólafólk, ferðaþjónustuaðila og fleiri. Fjölmörg áhugaverð verkefni á ýmsum stingum voru kynnt og einnig haldnar málstofur með þátttöku ráðstefnugesta. Í dag hófst þingið með ávarpi ferðamálastjóra, þar sem Ólöf Ýrr Atladóttir flutti erindi sem hún nefndi „Um ferðamananstaði og áfangastaði“. Ávarp ferðamálastjóra - smellið hér (Word)
Vatnavinir Vestfjarða hlutu hvatningarverðlaun
Þingið hóft með ávarpi Kartrínar Júlíusdóttir ferðamálaráðherra og lauk með afhendingu hvatningarverðlauna ráðherra fyrir verkefni sem miða að samstarfi skapandi greina og ferðaþjónustu. Þrjú verkefni voru tilnefnd.
- Vatnavinir Vestfjarða
- Eyðibýli á Íslandi
- Fuglastígur á Norðausturlandi
Aðalverðlaunin, 1 milljón króna, komu í hlut Vatnavina Vestfjarða.
Mynd: Gísli Sverrir Árnason, Eyðibýli á Íslandi; Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í Iðnaðarráðuneytinu; Sigrún Birgisdóttir, Vatnavinir Vestfjarða og Ari Páll Pálsson, Fuglastígur á Norðausturlandi.
Vatnavinir Vestfjarða:
Vatnavinir Vestfjarða er samstarfshópur í heilsutengdri ferðaþjónustu þar sem landeigendur, ferðaþjónar, stjórnsýsla og aðrir áhugamenn á Vestfjörðum vinna í nánu samstarfi með Vatnavinum og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða sem hlúð hafa að framgangi verkefnisins sem hrint var úr vör fyrir tveimur árum. Markmiðið verkefnisins er að þróa vestfirskt aðdráttarafl á heimsvísu tengt náttúru, heilsu, baðmenningu og vatni og auka þannig verðmætasköpun innan svæðisins. Samstarfshópurinn Vatnavinir Vestfjarða hvetur til sjálfbærrar nýtingar náttúrulauga á Vestfjörðum og nýjunga í heilsuþjónustu er stuðla að fjölgun ferðamanna á Vestfjörðum á næstu árum. Þess má geta að Vatnavinir Vestfjarða hafa opnað nýjan vef á slóðinni www.watertrail.is
Eyðibýli á Íslandi:
Í sveitum landsins er fjöldinn allur af eyðibýlum og öðrum yfirgefnum húsum sem mörg hver eru vel byggð og eiga merka sögu. Markmið verkefnisins er að meta menningarlegt vægi einstakra húsa og varðveita þannig valin eyðibýli (hús) á Íslandi. Í framhaldinu að kanna hvort grundböllur sé fyrir þvía ð eyðibýli og yfirgefin hús í sveitum landsins verði gerð upp með rekstur og útleigu í ferðaþjónustu í huga. Fyrstu skref verkefnisins voru stigin í sumar með rannsókn á fjölda þessara gömlu húsa á Suður- og Suðausturlandi.
Fuglastígur á Norðausturlandi
Tilgangur félagsins er að vera samstarfsvettvangur fyrirtækja og einstaklinga á Norðausturlandi um uppbyggingu fuglaskoðunar á svæðinu og ferðaþjónustu henni tengdri. Takmark félagsins er að efla ímynd Norðausturlands sem eftirsóknarverðs fuglaskoðunarsvæðis, með því að þróa og bjóða upp á þjónustu fyrir fuglaskoðara sem byggir á því mikla og fjölbreytta fuglalífi sem er að finna á svæðinu. Gefnir hafa verið út bæklingar, sett upp fuglaskoðunarskylti og fleira.
www.birdingtrail.is/