Vel sótt málþing í dag
Um 120 manns sóttu í dag málþing Ferðamálastofu á Grand Hótel um markaðssetningu innanlands. Að auki fylgdust um 40 manns með í gegnum fjarfund en málþingið var í beinni útsendingu á Internetinu.
Mikilvægi innanlandsmarkaðarins
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri setti málþingið og kom í ræðu sinni inn á mikilvægi innanlandsmarkaðarins fyrir atvinnugreinina. „Neysla innlendra ferðamanna innanlands árið 2010 var skv. mínum upplýsingum um 80 milljarðar króna, eða rétt um 40% af allri neyslu vegna ferðaþjónustu innanlands það ár. Íslendingar skipta því gríðarlega miklu máli fyrir hlut ferðaþjónustunnar í efnahagslífi þjóðarinnar, en ekki síður skipta viðskipti Íslendinga við ferðaþjónustufyrirtæki af ýmsum toga máli fyrir afkomu þeirra,“ sagði Ólög meðal annars.
Skortir gæðavitund
Hún sagði það því vekja spurningar þegar í ljós kemur, að samkvæmt könnunum Ferðamálastofu er t.d. langur vegur milli krafna íslenskra og erlendra ferðamanna um viðurkenndar gæðaúttektir á þeim ferðaþjónustufyrirtækjum sem skipt er við; á meðan 56% erlendra ferðamanna telja slíkar úttektir skipta máli, gera ríflega helmingi færri íslenskir ferðamenn, eða 27% slíkar kröfur. „Við hljótum að vilja að nánustu nágrannar okkar veiti okkur aðhald og hjálpi okkur með sínum væntingum að byggja upp faglega gæðaþjónustu – og það hlýtur því að verða eitt viðfangsefnanna í innleiðingu nýja gæðakerisins Vakans að vekja íslenska ferðamenn til vitundar um það hversu mikilvægt að það er að geta gengið að gæðunum vísum, hvar sem leitað er eftir þjónustu innan atvinnugreinarinnar,“ sagði Ólöf Ýrr
Ísland allt árið
Ólöf lauk ræðu sinni á þeirra staðreynd að enn skortir talsvert á að Íslendingar hafi til full opnað augun fyrir þeim möguleikum sem ferðalög um Ísland skapa utan sumarsins. „Úr þessu væri æskilegt að bæta. Og Ferðamálastofa, ásamt markaðsstofum ferðaþjónustunnar um land allt hefur hug á að leggja sitt af mörkum til þess. Þessi fundur í dag er fyrsta skrefið í því. Hér á eftir munu....það er von okkar sem að þinginu standa að hér kvikni frjóar hugsanir og skapist fjörugar umræður. Afraksturinn getur orðið til góðs fyrir okkur öll,“ sagði Ólöf Ýrr.
Erindi frá málþinginu
Erindi frá málþinginu eru nú aðgengileg hér á vefnum. Aðalfyrirlesarar voru þeir Friðrik Rafn Larsen, lektor við Háskólann í Reykjavík og Ingvi Jökull Logason, markaðssamskiptafræðingur hjá H:N Markaðssamskiptum. Fundarstjóri var Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi.
Erindi frá Málþingi um markaðssetningu innanlands