Verkefni í menningarferðaþjónustu fær 50 milljóna króna styrk frá ESB
Evrópuverkefnið "Destination Viking - Sagas & Storytelling" fékk um helgina jákvæða afgreiðslu á umsókn um styrk úr sjóði Northern Periphery áætlunar Evrópusambandsins sem Íslendingar gerðust aðilar að fyrr á þessu ári.
Um er að ræða stærsta Evrópuverkefni á sviði menningarferðaþjónustu sem Íslendingar taka þátt í en Íslendingasögurnar eru samnefnari verkefnisins. Heildarkostnaðaráætlun verkefnisins nemur einni milljón evra eða um 85 milljónum króna. Þar af styrkir Evrópusambandið verkefnið um 50 milljónir króna og rennur um helmingur styrkfjárins hingað til lands.
Um er að ræða samstarf 18 "víkingaverkefna" frá sex löndum: Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Skotlandi og Svíþjóð. Þá hafa aðilar frá eyjunni Mön á Írlandshafi og Leifsbúðum (L´Anse aux Meadows) á Nýfundnalandi óskað eftir að fá að taka þátt í verkefninu á eigin kostnað.
Samningsaðili við Evrópusambandið um styrkinn er Byggðastofnun en verkefnisstjóri er Rögnvaldur Guðmundsson hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar. Sex íslenskir þátttakendur eru í verkefninu: Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða með verkefni um Gísla sögu, Dalabyggð með Eiríksstaði og Leifsverkefnið, Safnahús Vesturlands með Egilsstofu, Grettistak sf. í Húnaþingi vestra, Reykjanesbær með víkingaskipið Íslending og uppsveitir Árnessýslu með verkefni um Þjórsárdal og Þjóðveldisbæinn.
Verkefnið er til þriggja ára og lýkur í árslok 2005. Fyrsti samráðsfundur í verkefninu verður haldinn í uppsveitum Árnessýslu í febrúar