Fara í efni

Verslun ferðamanna í kjölfar efnahagssamdráttar

Konamedhatt
Konamedhatt

Þrátt fyrir að færri erlendir ferðamenn hafi lagt leið sína til landsins á síðasta ársfjórðungi í fyrra en á sama tíma árið á undan þá eyddi hver þeirra mun hærri fjárhæð. Þetta kemur fram í skýrslunni Ferðamannaverslun í kjölfar efnahagssamdráttar frá Rannsóknasetri verslunarinnar við Háskólann á Bifröst.

Talningar Ferðamálastofu sýndu 1,3% fækkun erlendra ferðamanna síðustu 3 mánuði síðasta árs, miðað við sama tíma 2007. Neysluútgjöld erlendra ferðamanna á síðasta ársfjórðungi síðasta árs voru hins vegar 148,7% hærri en á síðasta fjórðungi árið áður, samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands, segir í skýrslunni. Söluverðmæti þess sem útlendingar keyptu hér á síðasta ársfjórðungi 2008 með tax-free skilmálum hjá Iceland Refund var 327% hærra en árið áður og fjöldi sölueyðublaða sem afgreidd voru meira en tvöfaldaðist þegar borin eru saman sömu tímabil. Veltuaukning hjá Global Refund á sama tímabili nam 126% og alls nam aukningin 62,4% milli áranna 2007 og 2008. Mest var keypt af tískufatnaði, útivistarfatnaði, ullarvörum, minjagripum, úrum og skartgripum með tax-free fyrirkomulagi.

Búist við aukinni veltu
Annar tilgangur skýrslunnar var einnig að gera grein fyrir breytingum á verslun Íslendinga erlendis á árinu 2008 en verulega dró úr þeim á því tímabili sem um er rætt. Í skýrslunni er áætlað að samdráttur á útgjöldum Íslendinga erlendis og útgjöld erlendra ferðamanna  sem hingað koma geti leitt til aukinnar veltu í íslenskri verslun og þjónustu sem nemur 32 milljörðum króna á þessu ári.

Skýrslan í heild:
Ferðamannaverslun í kjölfar efnahagssamdráttar (PDF)