Vestnorden hefst í næstu viku
Tæplega 100 íslensk fyrirtæki eru skráð til þátttöku á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem hefst í Laugardalshöllinni næstkomandi mánudag. Ferðamálaráð Íslands, Grænlands og Færeyja hafa staðið að kaupstefnunni síðastliðna tvo áratugi og er hún haldin til skiptis í löndunum þremur.
Ríflega 130 sýnendur
Sýnendur á kaupsstefnunni koma frá vestnorrænu löndunum þremur auk þess sem fyrirtæki frá Danmörku og Settlandseyjum taka þátt. Samtals eru 133 fyrirtæki frá þessum löndum skráð sem sýnendur að þessu sinni þannig Íslendingar lang fölmennastir líkt og jafnan áður. Ferðamálaráð Íslands verður að sjálfsögðu með bás á kaupstefnunni.
Kaupendur koma víð að
Á Vestnorden hitta sýnendurnir ferðaheildsala hvaðanæva að úr heiminum sem eru að selja ferðir til norrænu landanna og eiga með þeim stutta fundi sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Ríflega 100 kaupendur frá 18 löndum eru skráðir til þátttöku á Vestnorden að þessu sinni. Má þar nefna fyrirtæki frá Ástralíu, N.-Ameríku og Rússlandi en flest eru fyrirtækin þó frá nágrannaríkjum okkar í V.-Evrópu. Danir eru fjölmennastir en 17 danskir aðilar taka þátt og frá Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum kemur um tugur fyrirtækja frá hverju landi.
Heimasíða Vestnorden 2004
Að þessu sinni er það Ferðamálaráð Íslands sem sér um að halda Vestnorden en samið var við Congress Reykjavík um skipulagningu og framkvæmd. Á heimasíðu Vestnorden má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um kaupstefnuna. Meðal annars er á síðunni hægt að skoða skrá yfir alla sýnendur og kaupendur.