Vetraráningastaðir campera um land allt
Ferðamálastofa óskaði fyrr í haust eftir upplýsingum um þá aðila sem tilbúnir eru að veita ferðalöngum á minni húsbílum eða „camperum“ þjónustu yfir vetrartímann. Viðbrögð voru góð og nú hafa 27 aðilar um allt land skráð sig til að veita slíka þjónustu. Eru upplýsingar um þá aðgengilegar á gagnvirku korti á visiticeland.com
Verkefnið er unnið í samstarfi Ferðamálastofu, SAF og Íslandsstofu. Grunnurinn að því er sú aukning sem hefur orðið á útleigu á minni húsbílum eða „camperum“ á undaförnum misserum. Þá hefur það einnig gerst að leigutímabil slíkra bíla hefur lengst og má nú sjá þá á ferðinni nánast allt árið.
Listinn stöðugt uppfærður
Upplýsingar um aðila sem tilbúnir eru að veita þjónustu sem þessa eru skráðar í gagnagrunn Ferðamálastofu um ferðaþjónustuaðila, sem m.a. birtist á visiticeland.com og vefjum markaðsstofa allra landshluta. Upplýsingarnar er m.a. hægt að skoða á gagnvirku korti, sem fyrr segir. Listinn er stöðugt uppfærður og er hægt að senda upplýsingar á netfangið kari@ferdamalastofa.is.
Lagt þar sem bannað er
Flestir leigjenda þessara bíla fara vissulega að settum reglum og notfæra sér tjaldsvæðin á sumrin til að leggja á yfir nótt. Því miður eru þó of mörg dæmi um að þeim sé lagt þar sem ekki er heimild til.Síðastliðið haust tóku gildi ný náttúruverndarlög þar sem sérstaklega er tekið fram í 22. gr. að „Utan þéttbýlis skal leita leyfis landeigenda eða annars rétthafa ef nota á tjaldvagn, fellihýsi, hjólhýsi, húsbíla og annan sambærilegan búnað utan skipulagðra tjaldsvæða“ Þá má einnig finna í lögreglusamþykktum margra sveitarfélaga svipað bann, þ.e. að bannað sé að gista í bílum utan skipulagðra svæða.
Möguleiki á viðbótartekjum
Nú er það svo að flest tjaldsvæði eru einungis opin yfir sumarið og því í fá hús að venda fyrir þá sem eru á ferðinni á umræddum bílum utan sumars. Ætla má að nokkur hundruð bílar séu í leigu utan háannar og að þar sé hægt að verða sé út um töluverðar viðbótatekjur fyrir þá sem eru með annarskonar þjónustu og geta boðið þessum gestum afnot af t.d. bílastæðum og salerni.