Viðbótarfjármunir til uppbyggingar á ferðamannastöðum
Í liðinni viku tilkynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, um úthlutun viðbótarstyrkja úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, samtals að upphæð 122 milljónir króna.
Því til viðbótar verður rúmum 70 milljónum króna varið til innviðauppbyggingar og landvörslu við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall samkvæmt tillögum ferðamálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra.
Vinsæll áfangastaður til framtíðar
Ljóst er að með eldgosinu á Reykjanesi er orðinn til vinsæll áfangastaður ferðamanna til fyrirsjáanlegrar framtíðar. Þær 70 milljónir sem tillögur ráðherranna kveða á um skiptast í tvennt. Framkvæmdasjóði ferðamannastaða verður falið veita allt að 35 milljónum króna til lagningar göngustíga að gosstöðvunum. Aðrar 35 milljónir fara til Umhverfisstofnunar og er áætlaður kostnaður við að ráða landverði til að hafa eftirlit með umgengni og upplýsingamiðlun svæðinu til 31. ágúst næstkomandi.
Tillagan er í samræmi við tillögu starfshóps um uppbyggingu á svæðinu sem stýrt er af Skarphéðni Berg Steinarssyni ferðamálastjóra og byggir sömuleiðis á mati Umhverfisstofnunar í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
122 milljónir úr Framkvæmdasjóði
Aukaúthlutun úr Framkvæmdasjóði má rekja til fjármagns sem safnast hefur upp vegna niðurfelldra og ónýttra styrkja sjóðsins. Styrkjunum, samtals að upphæð 122 milljónir króna, má skipta í þrennt:
Bætt aðgengi - 53.7 milljónir króna
Ferðamannastaðir eiga að vera aðgengilegir fólki með fötlun , öldruðum og öðrum sem hafa skerta hreyfigetu. Því er brýnt að leggja aukna áherslu á aðgengi fyrir alla að ferðamannastöðum og voru tillögurnar unnar í samvinnu við fulltrúa Sjálfsbjargar lsh. og Öryrkjabandalags Íslands. Við vinnuna var haft að leiðarljósi að styrkt yrðu verkefni úr öllum landshlutum.
Eldgosið í Geldingadölum - 10 milljónir króna
Styrkveiting til Grindavíkurbæjar til aðgerða vegna eldgossins í Geldingadölum, líkt og greint var frá 26. mars sl. Verkefnið felst í stikun gönguleiðar til að greiða aðgengi fólks að eldgosinu í Geldingadölum, púða fyrir aðstöðu og salerni, gerð bílastæðis nærri gönguleið, skiltagerð og merkingar og lagfæringar áslóðum fyrir viðbragðsaðila. Tillagan var unnin í samráði við bæjarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Grindavíkurbæjar.
Önnur verkefni – 58,3 milljónir króna
Þá hefur ráðherra ákveðið að styrkja sjö góð og brýn verkefni sem ekki hlutu brautargengi við síðustu úthlutun. Styrkirnir renna til eftirtalinna aðila:
- Akureyrarbær vegna áfangastaðarins Hríseyjar,
- Eyvindartunga vegna áningarstaðarins Kolhóls,
- Vestmannaeyjabæ vegna skipulags og hönnunar gönguleiðar á Helgafell,
- Hafnarfjarðarbær vegna stækkunar bílastæða við Kaldársel,
- Menningarfélagið Tankur vegna útilistaverks,
- Blönduósbær vegna framkvæmda við jarðvegsvinnu, lýsingu og merkingar við Hrútey,
- Reykjanes Geopark til vinnslu ítarlegs deiliskipulags og hönnunar fyrir áningarstaðinn Þorbjarnarfell.