Viðurkenning til Hótel Búða
Breska blaðið "The Independent" útnefndi á dögunum Hótel Búðir á Snæfellsnesi sem eitt af fimm bestu sjávarsíðuhótelum í heimi.
Er þetta önnur viðurkenningin af þessu tagi sem Hótel Búðum áskotnast á skömmum tíma en eins og greint var frá hér á vefnum komst hótelinð einnig á svonefndan "Hotlist" hins virta ferðatímarits "Condé Nast Traveler" yfir 100 bestu nýju hótel í heimi.
The Independent segir í rökstuðningi sínum að á Hótel Búðum sé raunar meiri jöklasýn en útsýni til sjávar en hótelið sé á staðnum þar sem Jules Verne lét söguna Leyndardóma Snæfellsjökuls gerast. Greint er frá því að hótelið hafi áður verið lítill sjávarréttastaður og gistiheimili en hafi orðið eldi að bráð fyrir nokkrum árum. Er þess getið að þar hafi nóbelskáldið Halldór Kiljan Laxnes stundum dvalið við skriftir. Hið nýja hótel sé endurbætt útgáfa hins eldra og skarti m.a. ljósmyndum frá síðustu öld og glerlömpum sem eldurinn hafi ekki náð að granda. Hin hótelin fjögur sem blaðið velur eru J Sweden í sænska skerjagarðinum, The Caves á Jamaíka, Portixol í Palma á Mallorca og Deseo í Mexíkó.
Mynd af vef Hótel Búða