Fara í efni

Viðurkenningar í austfirskri ferðaþjónustu

austurland2
austurland2

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Austurlands var haldinn í liðinni viku. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var boðið upp á Góugleði þar sem voru meðal annars veittar tvær viðurkenningar, Frumkvöðullinn og Kletturinn.

Álfheimar fengu frumkvöðlaverðlaun
Frumkvöðullinn er veittur þeim sem sýna áræði og hugmyndaauðgi við uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn og stuðla með verkum sínum að aukinni fjölbreytni í atvinnugreininni á Austurlandi. Verðlaunin komu að þessu sinni í hlut Ferðaþjónustunnar Álfheima á Borgarfirði eystra. Arngrímur Viðar Ásgeirsson og Þórey Sigurðardóttir tóku við verðlaununum en þau eiga og reka fyrirtækið í samvinnu við foreldra Arngríms. Þau eru hér hægra megin á myndinni með Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra og Skúla Birni Gunnarssyni, formanni stjórnar Markaðsstofu Austurlands.

Klífa erfiða hjalla
Kletturinn er veittur þeim einstaklingum sem um árabil hafa staðið í framlínu í ferðaþjónustu á Austurlandi og þar með stuðlað að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar um lengi tíma. Þeir eru, að því er segir í fréttatilkynningu, bjargið sem ferðaþjónustan byggist á og öðrum fyrirmynd í að klífa örðuga hjalla til að ná handfestu á framtíðinni. Að þessu sinni var Kletturinn veittur farfuglaheimilinu í Húsey sem Örn Þorleifsson hefur rekið allt frá 1981 og jafnlengi eða lengur lagt sitt af mörkum við að glæða áhuga erlendra ferðamanna á Austurlandi. Örn tók við viðurkenningunni ásamt Laufeyju Ólafsdóttur en þau reka ferðaþjónustuna í Húsey.

Díana Mjöll nýr formaður
Mikil endurnýjun varð á stjórn þeirra því aðeins Albert Jónsson, Djúpavogi, varð eftir í stjórn. Díana Mjöll Sveinsdóttir, frá Tanna Travel á Eskifirði, er nýr formaður.

Ný stjórn Ferðamálasamtaka Austurlands:
Díana Mjöll Sveinsdóttir, Tanni Travel Eskifirði
Albert Jensson, Adventura Djúpavogi
Hákon Guðröðarson, Menningarfjelagið Norðfirði
Jóhann Jónsson, Austfar Seyðisfirði
Sævar Guðjónsson, Ferðaþjónustan Mjóeyri Eskifirði

- halldor@ferdamalastofa.is