Vinna við gerð ferðamálastefnu 2005-2015
Eins og áður hefur komið fram er nú hafin vinna við gerð ferðamálastefnu fyrir tímabilið 2005-2015. Núverandi stefnumótun gildir til ársins 2005.
Magnús Oddsson ferðamálastjóri hefur verið skipaður formaður stýrihóps verksins og myndað hefur verið bakland 20 aðila þar sem eru 5 fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, 5 frá Ferðamálasamtökum Íslands, 5 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn frá hverjum stjórnmálaflokki sem á fulltrúa á Alþingi. Framkvæmd verkefnisins er á skrifstofu Ferðamálaráðs.
Verkefnisstjóri ráðinn
Þá hefur Jón Gunnar Borgþórsson verið ráðinn verkefastjóri ferðamálastefnunnar í fullt starf næstu 8 mánuði. Hann hefur áður unnið fjölmörg verkefni tengd markaðsmálum ferðaþjónustufyrirtækja, sinnt kennslu í HÍ, námskeiðahaldi o.fl. Jón Gunnar hefur störf nú í vikunni á skrifstofu Ferðamálaráðs í Reykjavík.