Birtist í Íslenska þjóðfélagið, tímarit um íslenskt þjóðfélag: Íslenska þjóðfélagið 2. tbl. 14. árgangur 2023, 87–106
Í þessari rannsókn verður fjallað um sögu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og áhrif þess á ójöfnuð í utanlandsferðum. Í fyrsta lagi verður fjallað um þróun farþegaflugs á Íslandi í ljósi laga og reglna, skipulags flugvalla og rekstrar flugfélaga á Vesturlöndum. Í öðru lagi verður saga millilandaflugs frá Akureyrarflugvelli rakin frá upphafi og fjöldi farþega áætlaður 1993–2022. Í þriðja lagi verður lagt mat á áhrif millilandaflugsins frá Akureyri á hlutfallslegan ójöfnuð í utanlandsferðum milli landshluta. Í fjórða lagi verður upptökusvæði millilandaflugs frá Akureyri, uppruni og áfangastaðir flugfarþega og sætanýting metin á grundvelli reynslunnar af millilandaflugi Niceair frá Akureyri 2022–2023. Að lokum verður lagt heildarmat á samfélagsleg áhrif og framtíðarhorfur millilandaflugs um Akureyrarflugvöll í ljósi alþjóðlegra rannsókna á þessu sviði. |