Lýsing |
- Við spáum að vöxtur í komum ferðamanna slái öll met í ár en að hægja taki síðan á vextinum. Spá okkar hljóðar upp á 2,2 milljónir ferðamanna á næsta ári og að fjöldinn fari upp í 2,5 milljónir árið 2018.
- Vægi ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu og atvinnuvegafjárfestingu hefur farið vaxandi undanfarin ár. Út frá ólíkum mælikvörðum má ætla að landsframleiðslan væri um 4-8% lægri en hún er í dag ef ekki hefði komið til uppgangs í ferðaþjónustunni.
- Sterkara gengi krónunnar hefur hingað til haft lítil áhrif á neyslu ferðamanna. Áhrifin eru þó sýnileg og gætu magnast upp ef gengi krónunnar styrkist enn frekar.
- Neyslumynstur ferðamanna, dvalartími og dvalarstaðir er mjög mismunandi eftir þjóðernum. Slíkar upplýsingar geta verið gagnlegar þegar kemur að því að markaðssetja íslenska ferðaþjónustu og dreifa ferðamönnum í tíma og rúmi.
- Afkoma í ferðaþjónustu hefur stórbatnað og fjárhagur er sterkari en áður fyrr. Litlar vísbendingar er að sjá um útlánabólu í ferðaþjónustu.
- Nýting hótela hefur batnað sl. misseri víðast hvar á landinu. Verð gistingar í Reykjavík hefur hækkað um tæp 40% í evrum á þremur árum. Við áætlum að um 2.500 hótelherbergi verði byggð í Reykjavík fram til ársins 2020.
- Aukinn ferðamannafjöldi eykur álag á hagræna innviði landsins eins og flugvelli, hafnir og vegakerfi. Einnig getur ferðamannastraumurinn reynt á félagslegu innviðina eins og heilbrigðiskerfið og löggæsluna.
- Að okkar mati er brýnt að fjárfesta í samgöngum og þá sérstaklega vegakerfinu en einnig mætti efla innanlandsflug til að dreifa ferðamönnum betur um landið.
- Til að fjármagna fjárfestingu hins opinbera í innviðum er brýnt að ná samstöðu um sanngjarna gjaldtöku. Sem dæmi mætti hækka gistináttaskatt og að auka beina gjaldtöku á einstaka ferðamannastöðum.
|