Fara í efni

Fjárhagsgreining - Staða íslenskrar ferðaþjónustu í árslok 2019

Nánari upplýsingar
Titill Fjárhagsgreining - Staða íslenskrar ferðaþjónustu í árslok 2019
Lýsing

-Niðurstöður úr greiningu KPMG fyrir Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála um fjárhagsstöðu ferðaþjónustunnar í árslok 2019

 

Fjárhagsstaða ferðaþjónustunnar hafði versnað fyrir COVID-19 ekki síst í kjölfar falls WOW Air og samdráttar í fjölda ferðamanna árið 2019. Fyrirtækin í greininni hafa verið að fjárfesta í aukinni afkastagetu til að mæta vexti síðustu ára og samhliða hefur skuldsetning aukist ásamt því að hörð samkeppni er farin að koma niður á afkomu fjölmargra félaga. Samdráttur í afkomu hefur gert fyrirtækjum erfiðara fyrir að standa undir skuldsetningu og með tekjuhruni ársins er augljóst að skuldsetningin er því sem næst ósjálfbær.

Greiningin í heild

Fjárhagsstaða í árslok 2019

  • Rekstrarafkoma ferðaþjónustunnar hefur dregist saman um fjórðung frá árinu 2016 og nam 20 ma.kr. árið 2019 eða 5,8% af tekjum.
  • Skuldsetning hefur aukist og nam um 224 ma.kr.
  • Fjárhagsstaðan og áskoranir voru mismunandi eftir landshlutum og einkennandi greinum.
  • Umfangsmikill hluti vaxtaberandi skulda hvíla á fyrirtækjum sem voru í þröngri stöðu fyrir COVID-19.

Slagurinn við COVID-19

  • Á árinu 2020 hafa verið fordæmalaus rekstrarskilyrði þar sem stjórnendur fyrirtækja hafa þurft að grípa til allra tiltækra ráða til að vernda starfsemi og tryggja lágmarks rekstrarsamfellu til að geta hafið rekstur aftur á ný.
  • Flest fyrirtækja hafa fengið greiðslufrystingu hjá lánveitendum og frestun á leiguskuldbindingum.
  • Úrræði stjórnvalda hafa verið nýtt eins og kostur er og mestu munar um hlutabætur, laun á uppsagnarfresti og frestun skattgreiðslna.
  • Ferðagjöf stjórnvalda og viðtökur innanlandsmarkaðar við framboði greinarinnar sköpuðu líflínu til skamms tíma.
  • Tekjufalls- og viðspyrnustyrkur eru líklega til að verða mikilvæg úrræði fyrir ferðaþjónustufyrirtæki næstu mánuðina.

Horfur

  • Endurskipulagning marga félaga er nú hafin og þrátt fyrir að fá félög hafi leitað í greiðsluskjól eða farið í gjaldþrot er viðbúið að fjöldi fyrirtækja muni fara þá leið á næstu mánuðum.  Í því felst eðlileg og nauðsynleg markaðsaðlögun.
  • Eigendur, lánveitendur og eftir atvikum opinberir aðilar þurfa að koma að þeirri skuldaleiðréttingu sem er framundan.
  • Greinin þarf að vera í stakk búin fyrir kröftuga viðspyrnu með stærri og skilvirkari rekstrareiningum sem krefst undirbúnings allra hagaðila greinarinnar.
  • Sett er fram spá um fjölda ferðamanna þar sem grunnspá gerir ráð fyrir um 800 þúsund ferðamönnum á árinu 2021.  Markaðsaðlögun þarf að eiga sér stað til að greinin sé arðbær og geti staðið undir skuldsetningu til lengri tíma litið.

Varpa skýrara ljósi á áskoranir greinarinnar

Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hafa fengið KPMG til að uppfæra greiningu á fjárhagsstöðu ferðaþjónustufyrirtækja með hliðsjón af ársreikningum ársins 2019. Fyrri greining var unnin út frá ársreikningum 2018 en uppfærð ársreikningagögn frá árinu 2019 og aðrar upplýsingar frá árinu 2020 gefa tilefni til að varpa skýrara ljósi á áskoranir greinarinnar sem rekja má til COVID-19.

Kynning og viðbrögð við skýrslunni

Kynningu Benedikts K. Magnússonar, sviðsstjóra ráðgjafarsviðs KPMG, á niðurstöðum greiningarinnar ásamt innslögum frá ferðamálastjóra, Arnari Ólafssyni frá Southdoor, Birnu Ósk Einarsdóttur frá Icelandair, Bjarnheiði Halldórsdóttur frá SAF, Kolbrúnu Jónsdóttur frá Íslandshótelum og Styrmi Þór Bragasyni frá Arctic Adventures má sjá hér að neðan.

 

 

Flokkun
Flokkur Umfang og áhrif
Útgáfuár 2020
Útgefandi Ferðamálastofa
Leitarorð fjárhagsgreining, afkoma, tekjur, covid, , kreppa, áfall. áföll, rekstur, kpmg, skuldir, gjaldþrot, arðsemi