Lýsing |
Helstu niðurstöður
Hagvöxtur verður 3,1% í ár og 2,1% á næsta ári, samkvæmt spánni. Hann tekur hægt við sér árin á eftir og verður 2,3% árið 2025 og 2,6% árið 2026.
Verðbólga hjaðnar smám saman en verður enn að meðaltali 5,3% á næsta ári og 4,3% árið 2025. Við búumst ekki við að verðbólga komist niður í markmið Seðlabankans á spátímanum.
Stýrivextir hafa náð hámarki í bili, samkvæmt spánni, en fara ekki lækkandi fyrr en á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Við spáum því að þeir verði enn 4,25% í lok spátímabilsins.
Horfur eru á að krónan styrkist á spátímabilinu, að evran fari úr því að kosta 144 krónur í lok þessa árs niður í 138 krónur í lok árs 2026.
Við búumst við að einkaneysla aukist mun minna í ár og næstu ár en í fyrra eða um 2,0% í ár og um 1,9% á næsta ári. Einkaneysla eykst svo smám saman meira með lækkandi vaxtastigi og auknum kaupmætti.
Atvinnuleysi mjakast upp á við eftir því sem hægir á efnahagsumsvifum. Við spáum 3,2% atvinnuleysi í ár, 3,9% á næsta ári, 4,4% árið 2025 og 4,1% árið 2026.
Kaupmáttur launa eykst aðeins örlítið í ár, um 0,6%, en meira á árunum á eftir, um 2,4% á næsta ári og 2,6% árið 2025.
Vísitala íbúðaverðs verður að meðaltali 5,0% hærri í ár en í fyrra, samkvæmt spánni, og 2,0% hærri á næsta ári en í ár. Markaðurinn kemst svo smám saman aftur á skrið þegar vaxtastigið fer lækkandi og við gerum ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 6,1% árið 2025 og 7,4% árið 2026.
Íbúðafjárfesting dregst áfram saman, samkvæmt spánni, um 5% í ár og 3% á næsta ári, áður en hún tekur að aukast aftur árin á eftir.
Spáin gerir ráð fyrir hægum vexti atvinnuvegafjárfestingar, að hún aukist um 3% í ár og um 3,4% á næsta ári.
Útflutningur verður 6,8% meiri í ár en í fyrra, drifinn áfram af fjölgun ferðamanna í upphafi ársins og eykst svo um 4,2% á næsta ári. Innflutningur eykst mun minna í ár en í fyrra, um 2,8% og 3,5% árið 2024.
Við spáum því að 2,2 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins í ár. Þeim fjölgi svo lítillega næstu ár, verði 2,3 milljónir á næsta ári, 2,4 milljónir árið 2025 og 2,5 árið 2026.
Eftir halla síðustu ára gerum við ráð fyrir lítillegum viðskiptaafgangi öll ár spátímans. Við sjáum fram á aukinn afgang af þjónustuviðskiptum og aukinn halla af vöruviðskiptum. |