Fara í efni

Könnun meðal íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja 2016

Nánari upplýsingar
Titill Könnun meðal íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja 2016
Lýsing

Niðurstöður úr viðhorfskönnun sem Ferðamálastofa fékk Gallup til að framkvæma í febrúar og mars 2016 meðal íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja. Markmiðið með könnuninni var að leggja mat á árangur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á árinu 2015 og horfurnar á árinu 2016. Verkefnið er liður í að koma á væntingavísi innan ferðaþjónustunnar.

Spurningalistinn samanstóð af 25 spurningum auk nokkurra bakgrunnsspurninga um fyrirtækið. Í könnuninni var m.a. spurt um veltu fyrirtækisins á árinu 2015 í samanburði við árið 2014, hvort hún hefði verið meiri, svipuð eða minni eftir einstaka árstíðum sem og eftir því hvort í hlut ættu íslenskir viðskiptavinir eða erlendir ferðamenn. Eins og sjá má af mynd sögðu flestir svarendur að veltan hefði verið meiri á árinu 2015 á öllum árstíðum í samanburði við árið 2014 en aukninguna mátti að mestu leyti rekja til viðskipta við erlenda ferðamenn.

Velta fyrirtækis

Langflestir eða 84,3% töldu að veltan myndi aukast á árinu 2016 í samanburði við árið 2015 og hið sama á við um framlegð fyrirtækja en þó voru nokkuð færri sem töldu að framlegðin myndi aukast eða 69,1%.

Velta og framlegð

Þegar spurt var um það hvort svarendur teldu vaxtartækifæri fyrirtækisins vera betri, svipuð eða verri en fyrir ári síðan sögðu 12% að vaxtartækifærin væru mikið betri en fyrir ári síðan, 42% að þau væru nokkuð betri, 41% svipuð og um 5% að þau væru verri eða miklu verri. Þegar spurt var um eftirspurn eftir vöru og þjónustu fyrirtækja eftir markaðssvæðum töldu flestir að eftirspurnin myndi aukast í miklum mæli (+70%) vegna ferðamanna frá N-Ameríku, Asíu og Bretlandi, í töluverðum mæli frá Mið- og S-Evrópu, Norðurlöndum og öðrum markaðssvæðum (+40-65%). Flestir voru hins vegar á því að eftirspurnin hjá Íslendingum myndi standa í stað.

Eftirspurn vöru og þjónustu

Nærri helmingur svarenda var á því að fyrirtæki þeirra þyrfti að fjölga starfsmönnum í árstíðabundnu starfi eða hlutastarfi og um þriðjungur á því að fjölga þyrfti starfsmönnum í heilsársstarfi.

Fjöldi starfsmanna

Svarendur voru beðnir um nefna þætti sem þeir töldu hafa haft jákvæð áhrif á árangur fyrirtækisins á árinu 2015 og raða þeim eftir mikilvægi og að sama skapi nefna þrjá þætti sem höfðu haft neikvæð áhrif á árangur fyrirtækis. Með þeim hætti fékkst mikilvægiseinkunn á bilinu 0-100 sem gefur til kynna vægi einstakra þátta. Þeir þættir sem svarendur töldu hafa haft hvað mest jákvæð áhrif á árangur fyrirtækisins á árinu 2015 voru fjölgun viðskiptavina, aukin flugtíðni til landsins, markaðssetning fyrirtækisins, jákvæð umfjöllun í fjölmiðlum eða samfélagsmiðlum, nýjar væntingar ferðamanna ásamt breyttri ferðahegðun, endurbætur og ný ferðavara hjá fyrirtækinu.
Þegar spurt var hins vegar um hvaða þættir hefðu haft mest neikvæð áhrif á árangur fyrirtækisins á árinu 2015 nefndu flestir hækkun á rekstrarkostnaði, veðrið, gengisþróun, samgöngur almennt í landinu, samkeppnisumhverfið og lítið framboð á þjónustu á því svæði sem fyrirtækið starfaði.

Hvað jákvætt?

Hvað neikvætt?

Þrír af hverjum fjórum sögðust vera ánægðir með hvernig tekist hefði til við markaðssetningu á Íslandi á undanförnum fimm árum, tæplega einn af hverjum fimm var hvorki ánægður né óánægður og 6% óánægðir.

Ánægður eða óánægður

Um könnunina

Könnunin var framkvæmd sem netkönnun á tímabilinu 9. febrúar til 11. mars og náði hún til íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja. Úrtakið var fengið úr gagnagrunni Ferðamálastofu og náði til fyrirtækja í eftirfarandi flokkum óháð stærð þeirra og starfsemi; 1. Beint frá býli, 2. Bílaleigur, 3. Bátaferðir, 4. Bókunarþjónusta, 5. Bændagisting, 6. Dagsferðir, 7. Einkagisting, 8. Farfuglaheimili, 9. Ferðaskipuleggjendur, 10. Ferðaskrifstofur, 11. Gistiheimili, 12. Gönguferðir, 13. Hótel og 14. Rútuferðir.

Könnunin var send á 1.688 netföng fyrirtækja en í inngangstexta var þess óskað að sá sem svaraði könnun væri annað hvort eigandi fyrirtækis, framkvæmdastjóri þess eða bæri ábyrgð á starfsstöð. Svarhlutfallið var 35%. Niðurstöður endurspegla svör einstakra fyrirtækja og eru þær greindar eftir tegund starfsemi, eftir því hversu lengi fyrirtækið hefur verið starfrækt, fjölda starfsmanna, hlutfalli erlendra ferðamanna af heildarviðskiptavinum, árlegri veltu, staðsetningu fyrirtækis og því hvort fyrirtæki hafi verið starfrækt hluta ársins eða allt árið.

Skráarviðhengi
Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Umfang og áhrif
Útgáfuár 2016
Útgefandi Ferðamálastofa
Leitarorð viðhorfskönnun, væntingavísir, árangur, afkoma, velta, áætlun, Gallup, horfur, væntingar, áætlun, áætlanir