Þolmörk ferðamanna á átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi
Nánari upplýsingar | |
---|---|
Titill | Þolmörk ferðamanna á átta vinsælum ferðamannastöðum á Suður- og Vesturlandi |
Lýsing | Í skýrslunni eru kynntar niðurstöður viðamikils rannsóknaverkefnis um þolmörk ferðamanna, nánar tiltekið viðhorfskönnunar sem gerð var meðal ferðamanna á átta vinsælum náttúruskoðunarstöðum á Suður- og Vesturlandi sumarið og haustið 2014 og veturinn 2015. Ferðamálastofa fjármagnaði verkefnið sem stýrt var af dr. Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósent í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Staðirnir áttaÁstæðu þess að Ferðamálastofa ákvað að láta ráðast í verkefnið má rekja til hinnar miklu fjölgunar ferðamanna hér á landi og þess álags sem af henni skapast. Því höfðu vaknað spurningar um hvort ferðamenn væru nú þegar of margir á vinsælustu áfangastöðum landsins. Staðirnir sem valdir voru til skoðunar voru: Djúpalónssandur, Geysir, Þingvellir, Hraunfossar, Þórsmörk, Jökulsárlón, Seltún og Sólheimajökull. Spurningalistunum var dreift meðal ferðamanna á þessum stöðum á þremur tímabilum; sumarið og haustið 2014 og veturinn 2015. Hvað var rannsakað?Í þessari skýrslu birtast heildarniðurstöður rannsóknar um þolmörk ferðamanna en áður hafa verið birtar niðurstöður sumarsins. Markmið rannsóknarinnar var að kanna:
Uppbygging skýrslunnarSkýrslan er mikil að vöxtum, enda efnið viðamikið. Að loknum inngangi er sagt frá helstu kennistærðum varðandi fjölgun ferðamanna og dreifingu þeirra um landið í tíma og rúmi. Í þriðja kafla er greint frá aðferðum sem beitt var við gagnaöflun og úrvinnslu gagna. Fjórði kafli hefur að geyma niðurstöður tölfræðigreiningarinnar. Að lokum er efni skýrslunnar dregið saman og rætt um þær vísbendingar sem efni skýrslunnar gefur um nauðsyn þess að grípa til aðgerða til að forðast ofnýtingu ferðamanna á náttúruskoðunarstöðum hér á landi. Niðurstöðukafli skýrslunnar tekur m.a. á:
MeginniðurstöðurÍ stuttu máli þá kemur fram að þrátt fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna hingað til lands hafi aukist mjög ört undanfarin ár voru flestir ferðamenn ánægðir með náttúruna og dvölina á stöðunum. Ánægja var einnig mikil með göngustíga og þá sérstaklega á haustin. Ánægja með bílastæði var sömuleiðis mest á haustin. Ánægja var ekki eins mikil með þjónustu, sérstaklega um sumarið. Almennt þótti hreint á svæðunum en þó síst við Jökulsárlón og í Þórsmörk um sumarið. Geysir þótti hins vegar síst hreint af svæðunum um haustið og veturinn. UmmerkiFáir urðu varir við rusl, skemmdir á náttúrunni, skemmdir á jarðmyndunum og gróðurskemmdir af völdum ferðamanna, en þó helst um sumarið. Sú umhverfisröskun sem ferðamenn tóku helst eftir var rof úr göngustígum og þá sérstaklega í Þórsmörk og við Geysi að sumarlagi en við Sólheimajökul um haustið og veturinn. Svæðin þóttu jafnframt náttúrulegust að vetrarlagi auk þess sem þau voru talin aðeins óöruggari um veturinn en um sumarið. Flestir töldu fjöldann hæfileganKönnunin leiddi einnig í ljós að flestir töldu fjölda ferðamanna og bifreiða hæfilegan en þó upplifðu ferðamenn frekar að það væru of margir aðrir ferðamenn á stöðunum um sumarið en um haustið. Algengast var að ferðamönnum við Geysi þætti þar mikið af öðrum ferðamönnum; 36% um sumarið, 15% um veturinn og 10% um haustið. Næst algengast var þetta viðhorf meðal ferðamanna við Jökulsárlón; 35% um sumarið, 16% um veturinn og 8% um haustið. Á Þingvöllum var einnig talsvert um að ferðamenn þættu margir og einnig var nokkuð um það í Þórsmörk um sumarið. Tengd verkefni snúa m.a. að rannsókn á samfélagsleg þolmörkum og viðhorfum heimafólks til ferðaþjónustu, sem Ferðamálastofa stendur að í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskólann á Hólum og afmarkaðri verkefni sem sem lúta að þolmörkum náttúru og stýrt er af Rannveigu Ólafsdóttur, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Ferðamálastofa mun standa fyrir ráðstefnu í Hörpu 28. apríl næstkomandi þar sem þolmarkarannsóknirnar og þessi tengdu verkefni verða til umfjöllunar og kynningar. Má kynna sér þau nánar hér |
Skráarviðhengi |
Höfundar | |
---|---|
Nafn | Þorkell Stefánsson |
Nafn | Anna Dóra Sæþórsdóttir |
Nafn | Anna Mjöll Guðmundsdóttir |
Flokkun | |
---|---|
Flokkur | Umfang og áhrif |
Útgáfuár | 2016 |
Útgefandi | Ferðamálastofa |
ISBN | 978-9979-9524-7-3 |
Leitarorð | þolmörk, þolmörk ferðamennsku, Djúpalónssandur, Geysir, Hakið á Þingvöllum, Hraunfossar, Húsadalur í Þórsmörk, Jökulsárlón, Seltún, Sólheimajökull, umhverfi, umhverfismál, félagsleg þolmörk, innviðir, vistkerfi, áfangaskýrsla, viðhorf, upplifun |