Fara í efni

Almenn jákvæðni í garð ferðaþjónustu en viðvörunarbjöllur hringja

Ferðafólk við Svartafoss. Mynd: Arnar Birkir Dansson
Ferðafólk við Svartafoss. Mynd: Arnar Birkir Dansson

Mikill meirihluti landsmanna er almennt jákvæður og jafnframt ánægður með ferðaþjónustu í heimabyggð, samkvæmt niðurstöðum viðamikillar rannsóknar um viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu sem kynntar voru á málþingi Ferðamálastofu og Rannsóknamiðstöðvar ferðamála í gær.

Jákvæðastir voru þeir gagnvart áhrifum ferðaþjónustu á samfélags- og efnahagsþróun, sérstaklega varðandi tækifæri til að efla atvinnulíf, auka afþreyingu og líf í heimabyggð.

Á sama tíma beina niðurstöðurnar sjónum að vaxandi vanda því þrátt fyrir þessa almennu jákvæðni má greina ákveðna þróun í þá átt að heildaránægja fari lækkandi og jafnframt eru auknar áhyggjur af ýmsum afmörkuðum þáttum. Á móti kemur að þeim fer fjölgandi sem telja að ferðaþjónustu fylgi drifkraftur til uppbyggingar og fleira jákvætt má telja til.

Hornsteinn í að ferðaþjónustan dafni í sátt við land og þjóð

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri kom inn á í opnunarávarpi sínu að á hverju ári koma til landsins u.þ.b. 5 erlendir ferðamenn á hvern Íslending. Þeir standa undir fjölbreyttu framboði á ferðum til og frá Íslandi og eiga sinn þátt í að hér þrífst mun fjölbreyttari þjónusta á ýmsum sviðum og leggja sitt til samneyslunnar. Ferðaþjónustan heldur uppi lífsgæðum, skapar fjölbreytt atvinnutækifæri og stuðlar að lífvænlegum samfélögum um land allt.

Jafnframt eru ferðamenn óhjákvæmilega hluti af daglegu lífi landsmanna og því útilokað annað en að mynda sér skoðun á atvinnugreininni. Arnar Már benti á að umræddar rannsóknir eru því ákveðinn hornsteinn í starfi allra þeirra sem vinna að því að ferðaþjónustan dafni í sátt við land og þjóð, þær segi okkur hvað megi gera betur og hvað sé á rétti leið.

Fyrsta könnun eftir Covid

Ferðamálastofa fól Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) að hafa umsjón með rannsókninni en um er að ræða framhald rannsókna sem ná allt aftur til 2014. Könnunin var framkvæmd sem símakönnun á landsvísu á tímabilinu 27. október til 19. desember 2023. Tekið var lagskipt slembiúrtak íbúa úr þjóðskrá fyrir hvert af sjö verkefnasvæðum markaðsstofa landshlutanna. Þetta er fyrsta stóra rannsóknin sem gerð er eftir að atvinnugreinin náði sér aftur á strik eftir Covid og niðurstöður sérlega áhugaverðar í því tilliti.

Fjöldi ferðamanna og takmarkanir á komu þeirra

Meirihluti landsmanna telur að fjöldi ferðamanna sé hæfilegur í heimabyggð. Hins vegar hefur hlutfall landsmanna sem telja fjölda ferðamanna vera of mikinn að sumri aldrei mælst hærra. Um 30% svarenda í könnuninni 2023 töldu ferðamenn að sumri of marga. Þegar niðurstöður eru skoðaðar út frá búsetu sker Suðurlandið sig úr, þar sem 41% íbúa telja ferðamenn of marga að sumri til.

Landsmenn skiptust í tvær fylkingar um hvort nauðsynlegt sé að takmarka komur ferðamanna til landsins. 38% vilja takmarka komur erlendra ferðamanna til landsins en 49% eru mótfallnir slíkum takmörkunum. Rúmlega helmingur (55%) landsmanna er hins vegar hlynntur takmörkunum á komum skemmtiferðaskipa.

Meirihluti (57%) styður áframhaldandi markaðssetningu sinnar heimabyggðar.


Áhrif á efnahag og samfélag

Niðurstöður sýna að íbúar eru meðvitaðir um efnahagslegan ávinning ferðaþjónustunnar, þar sem 87% telja hana hafa efnahagslegt mikilvægi í heimabyggð. Stór hluti landsmanna (78%) telur að ferðaþjónusta hafi aukið fjölbreytni í atvinnulífi.

Sama hlutfall landsmanna, eða um 39%, telja að margir íbúar njóti efnahagslegs ávinnings af ferðaþjónustu í heimabyggð og að fáir njóti ávinningsins. Hlutfall þeirra sem telja efnahagslegan ávinning heimamanna mikinn hefur minnkað frá árinu 2019, og sú breyting er marktæk. Jafnframt hafa marktækt fleiri áhyggjur af því að lítill hluti tekna sem skapast vegna ferðaþjónustu verði eftir í heimabyggð, mældist 29% árið 2019 en 35% árið 2023

Um 80% telja ávinning af ferðaþjónustunni vega þyngra en þann kostnað sem af henni hlýst. Tiltrú á ferðaþjónustu er mikil, þar sem um 85% telja hana mikilvæga undirstöðu fyrir íslenskt efnahagslíf næstu áratugi.

Áhrif á samfélag og daglegt líf

Meirihluti landsmanna (80%) segist ekki finna fyrir ónæði frá ferðamönnum í daglegu lífi. Um helmingur kveðst hins vegar forðast ákveðna staði þar sem vænta má margra ferðamanna. Er það hærra hlutfall en mælst hefur í fyrri könnunum. Rúmlega helmingur (52%) landsmanna telja ferðamenn ekki hafa nein áhrif á lífsgæði sín en um 42% að þeir bæti þau. Meira en helmingur (53%) er á því að ferðaþjónusta hafi leitt til fjölbreyttari þjónustu í heimabyggðum.

Kynning á helstu niðurstöðum og yfirgripsmiklar skýrslur

Það var Eyrún Jenný Bjarnadóttir sem hafði umsjón með rannsókninni fyrir hönd RMF og flutti hún ítarlega kynningu á helstu niðurstöðum í gær sem vert er að kynna sér nánar.

Kynning Eyrúnar.

Samhliða var gefin út viðamikil skýrsla með niðurstöðunum fyrir landið í heild og 7 skýrslur fyrir hvern landshluta. Þær má allar kynna sér hér.

Fjögur erindi um ýmsar áskoranir

Auk kynningar á umræddri rannsókn voru á dagskránni fjögur erindi sem öll nálgast viðfangsefni málþingsins frá ólíkum sjónarhornum. Meginþemað eru þær ýmsu áskoranir sem felast í áhrifum ferðaþjónustu á nærsamfélagið og þjóðfélagið í heild. Erindin má nálgast hér að neðan.

Upptaka frá fundinum